Minning um Rósu Eggertsdóttur

Samstarfsfólk sendir fjölskyldu hennar og vinum innilegar samúðarkveðjur og þakkar gengin spor
Minning um Rósu Eggertsdóttur

Rósa Eggertsdóttir, fyrrverandi sérfræðingur hjá Miðstöð skólaþróunar við HA, lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri að kvöldi 17. október eftir langa og hetjulega baráttu við Parkinson-sjúkdóminn.

Rósa hóf störf sem sérfræðingur við Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri árið 1999 og varð starfsmaður Skólaþróunarsviðs kennaradeildar (sem nú er Miðstöð skólaþróunar við HA) við stofnun þess 2001 þar til hún lét af störfum vegna aldurs.

Meginviðfangsefni Rósu allan hennar starfsferil hjá HA voru læsi, skólaþróun og starfsþróun kennara. Þessi þrjú meginviðfangsefni sameinaði hún í þróunarverkefninu Byrjendalæsi sem hún var höfundur að og var meginviðfangsefni hennar hjá Miðstöð skólaþróunar. Í ár eru liðin 20 ár frá því að fyrstu skólarnir tóku þátt í því verkefni og í dag eru um 60 skólar virkir þátttakendur í því. Það hefur náð til mörg hundruð kennara og þúsunda nemenda. Byrjendalæsi var brautryðjendastarf, unnið af djúpri þekkingu á læsi, víðtækri þekkingu á starfsþróun og ráðgjöf við kennara, virðingu fyrir börnum og umhyggju fyrir velferð þeirra og menntun.

Meðfram starfi sínu við MSHA sinnti Rósa kennslu og leiðsögn nemenda í Kennaradeild HA og átti frumkvæði að stofnun áherslusviðs um læsi í meistaranámi Kennaradeildarinnar. 

Eftir Rósu liggur mikið af útgefnu efni um læsi og starfsþróun. Þar er bæði um að ræða fræðilegt efni sem hún skrifaði ýmist ein eða í samvinnu við aðra, og birtist bæði innanlands og á erlendum vettvangi, en einnig margvíslegt efni fyrir kennara, ásamt handbókum sem notaðar hafa verið við innleiðingu og þróun Byrjendalæsis. Rósa lét ekki staðar numið við starfslok sín við Háskólann. Árið 2019 gaf hún út bókina Hið ljúfa læsi; bók sem er í senn falleg, hagnýt og fræðileg, nýtist kennurum á öllum skólastigum og myndi ein og sér nægja til að halda nafni Rósu á lofti meðal þeirra sem láta sér annt um læsismenntun barna.

Rósa var eldhugi og um margt á undan sinni samtíð. Hún hafði tröllatrú á börnum og hvers þau eru megnug ef þau fá tækifæri til að spreyta sig á áhugaverðum viðfangsefnum í skapandi námsumhverfi. Hún hafði líka tröllatrú á kennurum og faglegri hæfni þeirra við að lesa úr fjölbreyttum þörfum nemenda og velja leiðir í kennslu. Hún var samverkafólki sínu fyrirmynd bæði í leik og starfi; samstarf við hana var ævinlega uppbyggilegt, krefjandi, lausnamiðað og fullt af nýsköpun og framkvæmdagleði.