Samstarfsfólk sendir ættingjum og vinum innilegar samúðarkveðjur og þakkar samfylgdina
Sigurður Bjarklind, fyrrverandi aðjúnkt við Háskólann á Akureyri, lést þann 10. febrúar síðastliðinn. Hann starfaði við skólann frá stofnun hans árið 1987 til ársins 2017 og var lengst af umsjónarkennari með líffærafræði og vefja- og frumulíffræði, ásamt því að leggja sitt af mörkum við uppbyggingu skólans. Siggi gegndi ætíð starfi sínu af mikilli elju, fagmennsku og dugnaði sem einkenndi hann alla tíð. Hann var afskaplega ljúfur vinnufélagi og uppáhald, jafnt nemenda sem og samstarfsfólks. Siggi var framúrskarandi kennari og það kom margoft fram í samtölum við nemendur að hann hefði einstakt lag á að útskýra flókna hluti á einfaldan og skýran hátt og ætti einstaklega auðvelt með að setja sig í spor nemenda sinna. Margoft tók hann á móti samstarfsfólki sínu í Maríugerði í Kinn, sælureit fjölskyldunnar, og fylgdi okkur um landareignina þar sem við dáðumst að framkvæmdasemi þessa ljúfa manns. Fyrir þær stundir og fyrir gefandi og ánægjulegt samstarf í áratugi erum við afar þakklát. Við sendum ættingjum og vinum Sigga innilegar samúðarkveðjur og þökkum samfylgdina.
Fyrir hönd fyrrverandi samstarfsfólks í Háskólanum á Akureyri
Sigfríður Inga Karlsdóttir, prófessor við Heilbrigðis,-viðskipta- og raunvísindasvið