Námskeið fyrir verðandi leiðbeinendur í hermikennslu við HA og SAk

Námskeiðið var haldið í nýju hermisetri Mennta- og vísindadeildar Sjúkrahússins á Akureyri
Námskeið fyrir verðandi leiðbeinendur í hermikennslu við HA og SAk

Dagana 15. – 16. ágúst fór fram námskeið fyrir verðandi leiðbeinendur í hermikennslu (Train The Trainer). Tíu þátttakendur voru á námskeiðinu, læknar og hjúkrunarfræðingar sem starfa á SAk og við Háskólann á Akureyri og koma margir hverjir þegar að kennslu hjá báðum stofnunum.

Námskeiðið var fjármagnar úr styrk sem úthlutað var árið 2023 úr samstarfssjóði háskólanna. Styrkurinn er ætlaður til uppbyggingar færni- og hermikennslu í heilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands í samstarfi við Sjúkrahúsið á Akureyri, Landspítala og Háskólann í Reykjavík. 

Á námskeiðinu læra þátttakendur að leiða hermikennslu sem er sífellt vinsælli kennsluaðferð í heilbrigðisvísindum. Kennsluaðferðin veitir þátttakendum tækifæri til æfa sig í sviðsettum aðstæðum og rýna í frammistöðu sína á gagnrýninn hátt án þess að stefna lífi og heilsu sjúklings í hættu.

Notkun hermikennslu hefur verið að aukast undanfarin ár í grunnnámi í hjúkrunarfræði við HA og með væntanlegri fjölgun nemenda eykst þörfin á sérhæfðum leiðbeinendum. Hermikennsla hefur verið notuð með formlegum hætti við þjálfun starfsfólks við móttöku mikið slasaðra á SAk síðan 2010 og síðan 2017 hafa reglulega verið haldin námskeið í þverfagleg hermikennslu í bráðaaðstæðum. Því er mikil þörf á að fjölga leiðbeinendum í hermikennslu. Þátttakendur námskeiðsins koma til með að kenna hermikennslu bæði á SAk og í HA.

Við val á þátttakendum var leitast við að hafa þá frá mismunandi sviðum heilbrigðisþjónustu sem nýtist vel við kennslu bæði við HA og SAk, en þátttakendur komu frá HA og geðdeild, bráðamóttöku, gjörgæslu, fæðinga- og kvensjúkdómdeild, skurðlækningadeild, barnadeild, og svæfingadeild SAk.