Norðurslóðir, norðurljós og næstu skref

Samstarfsvettvengur Norðurlanda og Kína í Norðurslóðamálum
Norðurslóðir, norðurljós og næstu skref

Mánudaginn 14. október hófst níunda ráðstefnan á vegum samstarfsvettvangs Norðurlanda og Kína í Norðurslóðamálum þar sem þátttakendur mættu til Akureyrar og skráðu sig inn. 

Sama dag fóru þátttakendur með rútu á Kárhól en þar er sameiginleg rannsóknarmiðstöð Íslands og Kína á sviði rannsókna á norðurljósum og loftslagsbreytingum. Starfsemin á Kárhóli var kynnt ásamt því að Alþjóðlega Norðurskautsvísindanefndin (IASC) stóð fyrir kynningum. Að þeim loknum voru umræður um alþjóðlegt rannsóknarsamstarf á norðurslóðum.

CNARC er samstarfsvettvangur Kína og Norðurlandanna um rannsóknir á norðurslóðum í mjög víðum skilningi, bæði út frá loftslagsmálum, umhverfismálum og félagsvísindum. Undirbúningur og framkvæmd ráðstefnunnar gekk mjög vel en þetta er í annað skipti sem HA heldur hana, fyrra skiptið var fyrir tíu árum síðan. Langflestir ráðstefnugestir héldu svo áfram til Reykjavíkur til að taka þátt í Arctic Circle Assembly eða Hringborði norðurslóða í Hörpu, en hún er líklegast stærsta ráðstefna um norðurslóðamál í heiminum,  sagði Rúnar Gunnarsson, forstöðumaður Miðstöðvar alþjóðasamskipta við skólann, aðspurður um hvernig tókst til.

Á þriðjudag og miðvikudag voru fyrirlestrar, málstofur og umræður á háskólasvæðinu. Rektor, Áslaug Ásgeirsdóttir, steig fyrst á stokk og ræddi um mikilvægi samstarfsins ásamt því að bjóða öll velkomin til okkar. Tom Barry, sviðsforseti Hug- og félagsvísindadeildar, lokaði svo dagskránni í hádeginu á miðvikudag og þakkaði öllum þátttökuna og óskaði góðrar ferðar.