„Nýnemavika er mín allra uppáhalds vika hér í HA. Það er svo margt að plana, gera og græja til þess að fyrstu kynni nýnemanna verði sem eftirminnilegust. Mig langar að öll skemmti sér vel og séu full tilhlökkunar fyrir komandi árum í HA, því árin mín í HA hafa svo sannarlega verið mín bestu. Það gefur mér svo mikið að sjá öll nýju andlitin og kynnast nýju fólki. Ég til dæmis kynntist mörgum af mínum bestu vinum hér í HA og mun ég verða ævinlega þakklát fyrir það. Ég hlakka til að taka á móti ykkur öllum,“ segir Silja Rún Friðriksdóttir, forseti Stúdentafélags Háskólans á Akureyri.
Silja Rún Friðriksdóttir, forseti SHA
Í næstu viku bjóðum við nýnema í grunnnámi velkomna í hóp HA-inga. „Á Nýnemadögum fá nýnemar fræðslu um háskólasamfélagið, aðstöðuna, félagslífið og fyrirkomulag náms svo fátt eitt sé nefnt. Við setjum dagskrána upp með það að markmiði að auðvelda stúdentum að hefja nám og mynda tengsl við samnemendur og starfsfólk. Reynslan sýnir einmitt að þátttaka á Nýnemadögum auðveldar stúdentum að hefja nám,“ segir Sólveig María Árnadóttir, verkefnastjóri sem ber ábyrgð á skipulagningu og framkvæmd Nýnemadaga.
Sólveig María Árnadóttir, verkefnastjóri samfélagsmiðla og samskipta
„Það er samvinnuverkefni okkar allra, starfsfólks og stúdenta, að taka vel á móti nýjum HA-ingum og við leggjum okkur fram um að þátttaka á Nýnemadögum muni nýtast vel. SHA og aðildarfélög þess taka virkan þátt í því að móta dagskrána og setja punktinn yfir i-ið þegar kemur að félagslífinu. Ég myndi segja að það dýrmætasta við þátttöku á Nýnemadögum sé tækifærið sem þú færð til tengslamyndunar strax í upphafi,“ bætir Sólveig María við.
Þá tekur Miðstöð alþjóðasamskipta á móti 45 skiptinemum frá um 15 löndum á föstudeginum. Þann dag verður einnig sérstök móttaka og dagskrá fyrir stúdenta alþjóðastúdenta en 14 stúdentar hefja nú nám í fjórum nýjum námsleiðum sem ætlaðar eru stúdentum með annað móðurmál en íslensku. „Á föstudagskvöldinu stendur SHA síðan fyrir sérstakri skemmtun fyrir skiptinema og alþjóðastúdenta. Þannig við reynum að gæta þess að öll séu boðin velkomin í HA og nái að tengjast HA-ingum strax á fyrsta degi,“ segir Silja Rún.
Hringing Íslandsklukkunnar
Að vanda verður Íslandsklukkunni hringt í tilefni af upphafi skólabyrjunar en það er fulltrúi nýnema sem mun slá 24 högg - eitt fyrir hvert frá árinu 2000. Það verður gert kl. 11:30 á föstudeginum, 30. ágúst og er öllum velkomið að mæta.