Fræðasvið Háskólans á Akureyri eru tvö; Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasvið og Hug- og félagsvísindasvið. Innan fræðasviðanna eru svo starfræktar deildir sem eru faglegar grunneiningar háskólans sem starfa á vettvangi fræðasviðanna. Innan deilda háskólans fer fram kennsla, rannsóknir og stjórnun. Deildir eru sjálfstæðar um eigin málefni innan þeirra marka er sameiginlegar reglur háskólans setja og bera faglega ábyrgð á háskólakennslu og námi og veitingu prófgráðu við námslok.
Forseti fræðasviðs skipar deildarforseta til tveggja ára í senn samkvæmt tilnefningu deildarfundar. Nánar má lesa um hlutverk og ábyrgð deilda hér. Sex af átta deildum háskólans hafa tilnefnt nýja deildarforseta og tóku þeir formlega við 1. júlí:
- Auðlindadeild: Margrét Auður Sigurbjörnsdóttir, dósent, tekur við sem deildarforseti Auðlindadeildar af Hreiðari Þór Valtýssyni, dósent.
- Félagsvísindadeild: Sigurður Kristinsson, prófessor, tekur við sem deildarforseti Félagsvísindadeildar af Birgi Guðmundssyni, prófessor.
- Iðjuþjálfunarfræðideild: Sólrún Óladóttir, lektor, tekur við sem deildarforseti Iðjuþjálfunarfræðideildar af Sigrúnu Kristínu Jónasdóttur, lektor.
- Kennaradeild: Guðmundur Engilbertsson, lektor, tekur við sem deildarforseti Kennaradeildar af Birnu Maríu B. Svanbjörnsdóttur, dósent.
- Lagadeild: Davíð Þór Björgvinsson, prófessor, tekur við sem deildarforseti Lagadeildar af Rachael Lorna Johnstone, prófessor.
- Viðskiptadeild: Sigurður Ragnarsson, lektor, tekur við sem deildarforseti Viðskiptadeildar af Grétari Þór Eyþórssyni, prófessor.
Framhaldsnámsdeild í heilbrigðisvísindum sameinast Hjúkrunarfræðideild
Þá hættir Þorbjörg Jónsdóttir, dósent, sem deildarforseti Framhaldsnámsdeildar í heilbrigðisvísindum en deildin hefur nú verið sameinuð Hjúkrunarfræðideild. Framhaldsnám í heilbrigðisvísindum færist inn í Hjúkrunarfræðideild ásamt fagnámi fyrir starfandi sjúkraliða. Sigríður Sía Jónsdóttir er deildarforseti Hjúkrunarfræðideildar.
Unnið er að því að uppfæra allar upplýsingar varðandi breytingar í stjórnsýslu háskólans á vefnum okkar.
Háskólinn á Akureyri þakkar fráfarandi deildarforsetum fyrir þeirra störf í þágu háskólans og óskar nýskipuðum deildarforsetum velfarnaðar í starfi!