Í dag á frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands og fyrst kvenna til að gegna því embætti lýðræðislega kjörin, 95 ára afmæli. Við óskum henni hjartanlega til hamingju með daginn og þökkum henni fyrir ómetanlegt framlag til íslensks samfélags.
Árið 2019 hlaut frú Vigdís heiðursdoktorsnafnbót við Háskólann á Akureyri á sviði heilbrigðisvísinda og erum við afar stolt af því að hún sé hluti af þeim virðulega hópi. Heiðursnafnbótina hlaut hún fyrir víðtæk jákvæð samfélagsleg áhrif, meðal annars á íslenska tungu, menningu og listir, jafnrétti og skógrækt, sem og heilbrigðis- og líknarmál. Vigdís hefur einnig stutt sérstaklega við hjúkrunarfræðinga og er heiðursfélagi í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga en móðir hennar gegndi stöðu formanns þess félags um árabil.
Við hjá Háskólanum á Akureyri minnumst með þakklæti þeirra áhrifa sem frú Vigdís hefur haft á íslenskt samfélag og menntakerfi og sendum henni okkar bestu kveðjur og hamingjuóskir á þessum merku tímamótum.