Vísindafólkið okkar er mánaðarleg kynning á vísindafólkinu okkar. Romain Chuffart er Nansen prófessor í heimskautafræðum.
„Ég er fæddur í Belgíu og hef búið, unnið og stundað nám í mörgum löndum. Þar á meðal eru Bretland, Danmörk, Ísland, Grænland, Rússland, Japan og Noregur. Það er þó ekki fyrr en ég kem til Akureyrar árið 2015 að ég byrja að rannsaka norðurheimskautið í heimskautaréttsnáminu en þá varð ekki aftur snúið,“ segir Romain um það hvað leiddi hann að norðurheimskautinu og til Íslands.
Romain talar þrjú tungumál, ensku, dönsku og frönsku, les rússnesku og skilur þýsku og hollensku. „Ég er líka að reyna að læra íslensku en er ekki viss um hvernig það gengur og held stundum að ég sé alveg óvart að skapa nýtt tungumál!“
Hvernig Japan leiddi til Íslands
Romain hóf doktorsnám í lögfræði við Háskólann í Lapplandi þegar hann lauk meistaranáminu á Akureyri. Hann gerði hlé á því þar sem hann var ekki með styrk til að halda áfram og fór að vinna í St. Pétursborg við þýðingar fyrir samtök sem vinna við vitundarvakningu og menntun um norðurskautið. „Eftir það fór ég til Japan til að vinna sem sérfræðingur í rannsóknum við Miðstöð samstarfs í rannsóknum á heimskautasvæðum (Polar Cooperation Research Centre) við Kobe University og sú reynsla opnaði augu mín fyrir mikilvægi alþjóðlegs samstarfs í rannsóknum og að fá styrki,“ segir Romain um hvernig það kom til að hann fór að vinna við rannsóknir á heimskautasvæðum.
„Frá árinu 2022 hef ég verið framkvæmdastjóri Arctic Institute – Center for Circumpolar Security Studies, sem eru óhagnaðardrifinn samtök í Washington D.C., þar sem ég stýri rannsóknum um öryggi, stjórnun og umhverfisáskoranir í norðurskautinu. Markmið okkar er að styðja við stefnumótun í norðurskautinu í samhengi við loftslagsvána og nýta akademískar rannsóknir við ákvörðunartökur,“ bætir Romain við. Árið 2023 kláraði Romain doktorsgráðu í lögfræði við Durham háskóla þar sem hann einbeitti sér að tengslum mannréttinda, stjórnun í umhverfismálum og þátttöku frumbyggja í ákvörðunartöku á norðurskautinu.
Lögin aldrei hlutlaus
„Í dag er ég Nansen prófessor við skólann sem er gestaprófessorstaða í heimskautafræðum. Þar fæ ég að vinna við rannsóknir sem þvera margar fræðigreinar. Í gegnum rannsóknir, kennslu og stefnumótun vil ég leggja mitt af mörkum við að móta framtíð stjórnunar á norðurskautinu sem leggur áherslu á réttlæti, sjálfbærni og raunverulega samvinnu. Ég hef verið þjálfaður í rannsóknum í lögfræði. Ég skoða hvernig lög og pólitík geta aðlagast til að takast á við vaxandi áskoranir vegna loftslagsbreytinga, hnignunar vistkerfa og ójöfnuðar í stjórnun á nýtingu hafsvæða í norðurskautinu.“ segir Romain um starf sitt í dag og bætir við:
„Ég beiti þverfaglegri nálgun í fræðunum úr lögfræði, stjórnmálum, alþjóðasamskiptum og landfræði. Það verður að horfast í augu við að lög verða ekki til í tómarúmi heldur eru þau mótuð af valdhöfum, sögulegri arfleifð og mótsagnakenndum hagsmunum. Ég rannsaka hvernig þetta tvinnast saman bæði út frá fræðilegu og hagnýtu sjónarhorni. Kjarninn í rannsóknunum mínum og það sem ég tel mikilvægast er að skoða hvort notkun mannréttindasáttmála geti veitt frumbyggjum meiri stjórn á umhverfisstefnum sem hafa áhrif á landsvæði og samfélög þeirra í norðurskautinu. Það þarf að skilja hvernig réttindi og þekking frumbyggja geta verið nýtt til að styrkja stjórnun á þeirra svæðum en í dag er reyndin sú að það er oft og tíðum hunsað.“
Romain telur að einnig þurfi að beina sjónum að rannsóknum hvað varðar umhverfis- og hafstjórnun og að alþjóðlegur réttur þurfi að aðlagast betur til að hægt sé að takast á við vistfræðilegar kreppur. „Þrátt fyrir að þessar rannsóknaráherslur hljómi fræðilegar, tel ég að akademískar rannsóknir eigi að vera tengdar við framkvæmd og bregðast við þörfum samfélaga. Kenningar verða að móta raunverulegar lausnir til að búa til sanngjarnari og áhrifaríkari leiðir til að annast og verja bæði fólk og umhverfi. Í rauninni ættum við að sameina rannsóknir og framkvæmd til að bæta lögfræðilegan ramma til að þjóna þeim sem verða fyrir áhrifum þeirra.“
Annaðhvort á skrifstofunni eða í líkamsræktarstöð
„Ég kenni og það sem mér finnst einna skemmtilegast er að hvetja stúdenta til að vera gagnrýnin á lögfræðina og uppbyggingu hennar, að efast um það sem er talið sjálfsagt og takast á við flókin hugtök. Raunin er nefnilega sú að lög sem eru oft kynnt sem hlutlaus eru mótuð af fólki sem í grunninn getur aldrei verið algjörlega hlutlaust. Á sama tíma felast áskoranir í kennslu. Alþjóðlegur réttur, sérstaklega stjórnun norðurskautsins, er mjög tæknilegur og oft óljós vettvangur. Sum hugtök, eins og fullveldi, lögfræðileg fjölhyggja og sjálfsákvörðunarréttur, getur verið erfitt að skilja án sterkrar fræðilegrar undirstöðu. Áskorunin felst í því að gera þessi hugtök aðgengileg án þess að einfalda þau of mikið og tryggja að nemendur taki þátt í þeirri dýpt og nákvæmni sem þau krefjast. Fyrir mér er kennsla líka rannsóknar- og samstarfsferli þar sem við getum efast um eigin forsendur og þróað ný sjónarhorn.“ Svona útskýrir Romain afstöðu sína til kennslunnar en hann kennir Heimskautarétt við skólann og við Háskólasetur Vestfjarða þar sem hann kennir hafstjórnun á norðurskautinu.
Romain skreppur þó einstöku sinnum út af skrifstofunni og lítur upp úr rannsóknum sínum: „Ég hef mjög gaman af hverskonar íþróttum og hef gaman af því að ræða þær. Ég er alltaf til í spjall um atvinnuhjólreiðar, rúgbí eða nýjustu þríþrautakeppnina! Svo má oft og tíðum finna mig á líkamsræktarstöðvum Akureyrar. Það besta við Akureyri er hversu nálæg náttúrunni hún er og það er hægt að ganga allt sem ég þarf að komast!“
Umfjöllun á Instagram