Umsóknarfrestur um nám við Háskólann á Akureyri rann út mánudaginn 5. júní síðastliðinn. Samtals barst 1.891 umsókn, sem er 11% fjölgun umsókna frá því í fyrra. Flestar umsóknir í grunnnám bárust í viðskiptafræði eða 261.
Hjúkrunarfræði er áfram vinsæl námsgrein við háskólann en þar barst 251 umsókn og í sálfræði 172 umsóknir. Báðar þessar námsleiðir eru háðar fjöldatakmörkunum og að loknum samkeppnisprófum kemst aðeins hluti stúdenta í áframhaldandi nám á vormisseri.
Önnur námsgrein við háskólann sem nýtur áframhaldandi vinsælda er lögreglufræði. Alls bárust 190 umsóknir í lögreglufræði fyrir verðandi lögreglumenn en þar má gera ráð fyrir að um 70 umsækjendum verði boðið pláss að loknu inntökuferli. Þá er ljóst að átak í fjölgun kennaranema er enn að skila árangri og ekki hafa borist fleiri umsóknir um grunnnám við Kennaradeild síðan árið 2019.
Metaðsókn í líftækni
Námsleiðir sem aðeins eru kenndar í grunnnámi við Háskólann á Akureyri vekja athygli umsækjenda og aldrei hafa fleiri sótt um nám í líftækni. Þá er iðjuþjálfunarfræði áfram vinsæl námsleið og það sama má segja um félagsvísindi, nútímafræði og sjávarútvegsfræði.
Aldrei fleiri sótt um framhaldsnám við HA
Aldrei hafa fleiri sótt um framhaldsnám við Háskólann á Akureyri. Nýtt framhaldsnám Viðskiptadeildar í stjórnun svarar augljóslega kalli samfélagsins, en þar bárust alls 112 umsóknir og mun Viðskiptadeild þurfa að forgangsraða umsóknum.
Frá því að Kennaradeild fór að bjóða upp á tvær leiðir til kennsluréttinda, með og án ritgerðar, hafa aldrei fleiri sótt um framhaldsnám til kennsluréttinda með áherslu á leik- og grunnskólastig.
,,Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá fjölgun umsókna nú þegar mikil uppsveifla er í efnahagslífi landsins því oft hefur verið neikvæð fylgni þar á milli. Háskólinn á Akureyri höfðar greinilega vel til ungs fólks í dag og er sú mikla uppbygging sem átt hefur sér stað á síðustu árum að skila sér. Sveigjanlegt námsform er greinilega vinsælt meðal stúdenta,’’ segir Eyjólfur Guðmundsson, rektor HA. Jafnframt segir rektor að þörf sé á góðu samtali við stjórnvöld um frekari uppbyggingu Háskólans á Akureyri á næstu árum, háskóla sem svo sannarlega er háskóli norðursins og háskóli Íslands alls.
Háskólinn á Akureyri er í dag þriðji stærsti háskóli landsins.