Úthlutað var úr sjóðnum Gjöf Jóns Sigurðssonar við hátíðlega athöfn í Skála Alþingis. Veitt voru verðlaun í fjórum flokkum, fyrir samtals 19 fræðirit. Sjóðurinn er í umsjón Stjórnarráðs Íslands og var stofnfé hans erfðagjöf Ingibjargar Einarsdóttur og Jóns Sigurðssonar. Gjöf Jóns Sigurðssonar veitir viðurkenningar fyrir rit sem „lúta að sögu Íslands, bókmenntum þess, lögum, stjórn eða framförum“ eins og segir í stofnskrá sjóðsins. Veitt er úr honum á tveggja ára fresti.
Páll Björnsson prófessor og Ingibjörg Sigurðardóttir, aðjúnkt við Hug- og félagsvísindasvið, hlutu verðlaun. Páll fékk verðlaun fyrir bók sína Ættarnöfn á Íslandi og Ingibjörg fyrir bókina Sjálf í sviðsljósi.
Í verðlaunanefnd Gjafar Jóns Sigurðssonar eru Sigrún Magnúsdóttir (formaður), Sólveig Pétursdóttir og Guðmundur Andri Thorsson. Varamenn eru Guðmundur Einarsson, Stefán Pálsson og Margrét Tryggvadóttir.
Háskólinn á Akureyri óskar Ingibjörgu og Páli hjartanlega til hamingju með verðlaunin.