Háskólinn þátttakandi í fjölmörgum verkefnum sem fengu úthlutað úr samstarfssjóði háskólanna í dag
Háskólinn á Akureyri (HA) er þátttakandi í 21 af þeim verkefnum sem fengu úthlutað úr samstarfssjóði háskólanna. Nú í dag var veitt úr sjóðnum í annað skiptið og eru þar mörg verkefni sem lengi hafa beðið eftir að komast af stað og hafa nú fengið það brautargengi sem þarf.
„Það er ánægjulegt að sjá mikilvæg verkefni fá þá hvatningu sem úthlutunin felur í sér, ekki bara fjármagnið heldur líka viðurkenningu á mikilvægi þeirra. Þá er ljóst að úthlutunin felur í sér skýran stuðning áframhaldandi samtals HA við Háskólann á Bifröst og þá sérstaklega að í þeim er tryggt fjármagn rannsóknasjóðs komi til sameiningar,“ segir Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri um úthlutunina.
Heilbrigðislausnir í forgrunni
Þónokkur verkefni lúta að eflingu náms í heilbrigðislausnum og -vísindum og er HA meðal annars þátttakandi í verkefninu, Nemendum auðveldað að stunda meistaranám við fleiri en einn háskóla sem felur í sér samvinnu HA, Háskólans í Reykjavík (HR) og Háskóla Íslands (HÍ) í þverfaglegu meistaranámi í heilbrigðislausnum. Þá er HA einnig þátttakandi í verkefninu Þrívíddarprentun og sýndarveruleiki notaður til að bæta heilbrigðisþjónustu og auka öruggi sjúklinga og stefnt er að því að innleiða notkun þrívíddarlíkana af líffærum og líffærakerfum inn í þjálfun í færni- og hermisetrum.
Þá hlaut verkefnið Nám í ráðgjöf í málefnum fólks með heilabilun veglegan styrk og felst það verkefni í því að setja á laggirnar 60 ECTS eininga nám til viðbótardiplómu á meistarastigi. Verkefnið er samvinnuverkefni HA og HÍ. Verkefnið er liður í því að bregðast við þeirri heilbrigðis- og samfélagslegu áskorun sem heilabilun fylgir. Þá hlaut verkefnið Efling klínískrar lyfjafræði á Akureyri brautargengi og felur það í sér uppbyggingu á hluta af sérnámi í klínískri lyfjafræði á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Samstarfaðilar eru margir í því verkefni og HA einn af þeim. Þróun námsins er brýn til þess að fjölga klínískum lyfjafræðingum og mæta þar með þörfum heilbrigðiskerfisins og bæta aðgengi að menntun á landsbyggðinni.
Fjölbreytt verkefni áframhaldandi og framundan
Þá hlaut áframhaldandi styrk uppbygging iðnaðar- og orkutæknifræðináms á Akureyri, sem er samstarfsverkefni HA og HR og ánægjulegt að það sé verið að festa tæknifræðinám á Norðurlandi í sessi á grunni þess árangurs sem náðist með síðustu styrkveitingu úr Samstarfssjóði háskólanna.
Þá var virkilega gleðilegt að sjá verkefni sem lúta að inngildingu, jafnrétti og aðgengi að námi ná fram að ganga sem HA er þátttakandi að. Þar má nefna verkefnið Inngilding í íslensku háskólasamfélagi sem er samstarf opinberu háskólanna. Verkefnið á að þróa leiðir sem stuðla að aukinni inngildingu innflytjenda í háskólanámi, fjölga innflytjendum í háskólanámi og sporna við brottfalli.
Við óskum öllum til hamingju með þessi glæsilegu verkefni og það verður spennandi að taka þátt í þeim og fylgjast með þeim verða að veruleika.
Hér fyrir neðan er listinn yfir þau verkefni sem HA er þátttakandi eða aðili að og hér má sjá frétt frá Háskóla,- iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti um úthlutunina.
- Að innleiða bestu starfsvenjur í tengslum við taugafjölbreytileika (Establishing Neurodiversity Best Practices)
- Efling klínískrar lyfjafræði á Akureyri
- Efling tæknináms á Norðurlandi: Tæknifræði Háskólans í Reykjavík í Háskólanum á Akureyri
- Fagmál hjúkrunar (ICNP) til kennslu og rannsókna
- Financial Economics Group – Iceland (FEGI)
- Fjölmiðla-og boðskiptanám á tímum upplýsingaóreiðu
- Forritunarkeppni Háskólanna á Íslandi (FKHÍ) – ICPC
- GAGNÍS – fræðsla, aukin þjónusta og umfang
- Inngildandi nám á háskólastigi
- Inngilding í íslensku háskólasamfélagi
- Innleiðing á raunfærnimati til styttingar náms
- Miðstöð stafrænna hugvísinda og lista
- Nám í ráðgjöf í málefnum fólks með heilabilun
- Nemendum auðveldað að stunda meistaranám við fleiri en einn háskóla
- Rafræn miðlun fræðandi efnis um jafnréttismál
- Rannsóknasjóður sameinaðs háskóla HA og HB
- Sameinaður háskóli, Háskólans á Akureyri (HA) og Háskólans á Bifröst (HB)
- SamLeið: Sameiginleg leiðbeinendaþjálfun á Íslandi
- Snjallræði
- Þrívíddarprentun og sýndarveruleiki notaður til að bæta heilbrigðisþjónustu og auka öruggi sjúklinga
- Þróun kennslu, náms og val á nemendum í hjúkrun