Nú í haust lauk Erasmus+ verkefninu Eyjaskólar (Island Schools) sem fræðafólk við Kennaradeild Háskólans á Akureyri tók þátt í, ásamt Hríseyjarskóla. Verkefnið hófst 2020 og í því var komið á samstarfi milli grunnskóla í eyjasamfélögum í Evrópu, um nýsköpun í menntun og virka samfélagsþátttöku nemenda. Markmið verkefnisins var að veita nemendum metnaðarfull námstækifæri og valdefla þá til áhrifa varðandi brýn viðfangsefni sem eyjasamfélög standa frammi fyrir á sviði sjálfbærni.
Þátttakendur í verkefninu, auk Háskólans á Akureyri og Hríeyjarskóla, komu frá Spáni, Grikklandi, Skotlandi og Hollandi. Verkefnið fól í sér náið samstarf milli þátttökuskólanna og háskólastofnana.
Lögð var áhersla á að afurðir verkefnisins nýtist nemendum og kennurum í framtíðinni. Meðal annars var þróað app sem finnur samstarfsskóla og kortleggur sameiginlegar og ólíkar áskoranir samfélaganna. Þá voru búnar til þrjár kennsluáætlanir fyrir þemaverkefni um plast í hafi, sjálfbæra ferðaþjónustu og sjálfbærar samgöngur. Þá voru útbúnar ábendingar til stjórnmálafólks um stefnumótun sjálfbærar framtíðar eyjasamfélaga. Nemendur Hríseyjarskóla unnu tvö verkefni, sem hvort um sig stóð yfir átta vikur, með hollenska skólanum De Jutter sem staðsettur er á eyjunni Vlieland. Fyrra verkefnið fjallaði um plastmengun í hafi og það síðara um sjálfbæra ferðamennsku. Nemendur skólanna unnu saman á netinu, skiptust á myndefni og hittust á myndfundum og hápunktar samstarfsins voru heimsóknir milli skólanna.
Brynjólfur Bogason, nemandi í 10. bekk Hríseyjarskóla var einn af þeim sem tók þátt í verkefninu, „Mér fannst þetta gaman og það var mikið verklegt sem gerði það að verkum að þetta braut upp daginn og þá þurfti ég ekki að sitja allan daginn. Það var sett upp átta vikna áætlun og það sem mér finnst sitja eftir er meiri skilningur á þeim vandamálum sem þarf að finna lausnir á.“ Brynjólfur lýsir því líka að heimsóknin til Hollands hafi verið áhugaverð, „Já, það var skrýtið að koma til Hollands þar sem allt er stífara, kóngurinn kom í heimsókn þar sem við vorum og öll fóru í röð og þetta þótti afar merkilegt. Á Íslandi er Guðni forseti bara svona út um allt og ég get rekist á hann bara í göngutúr.“
Eitt af meginmarkmiðum verkefnisins var að nemendur ættu samtal við hagsmunaaðila sem tengjast umhverfismálum og skólamálum í sveitarfélaginu sínu og vinna sameiginlega að sjálfbæru samfélagi. Einn liður af því var að halda fund í Hríseyjarskóla 21. nóvember 2022 þar sem rætt var um plastmengun í hafi og nemendur skólans kynntu niðurstöður sínar. Fundinn sóttu um 20 gestir frá Akureyrarbæ og aðilum sem tengjast ferðamennsku og ferðaþjónustu á svæðinu og þótti einkar vel heppnaður. Í framhaldi af sendu nemendur í Hríseyjarskóla erindi á Umhverfis- og mannvirkjaráð Akureyrarbæjar varðandi lausagöngu hunda.
„Það var áhugavert að fá þjálfun í svona hugsun, að skilja og sjá vandamálin og ræða lausnir. Þá var líka mjög gaman að eignast vini frá Hollandi,“ segir Brynjólfur að lokum, glaður á leiðinni á fótboltaæfingu en hann segir það eitt af sínum helstu áhugamálum og hver veit nema hann horfi til hollensku deildarinnar í framtíðinni.
Í verkefnishópi Kennaradeildar HA voru, Bergljót Þrastardóttir lektor, Birna María B. Svanbjörnsdóttir dósent, Brynhildur Bjarnadóttir dósent, Hermína Gunnþórsdóttir prófessor og Rúnar Sigþórsson prófessor emeritus. Tengiliður Hríseyjarskóla var Hrund Teitsdóttir kennari.
Frekari upplýsingar um verkefnið má finna hér á vefsíðu IslandSchools.