Oddur Þór Vilhelmsson prófessor við Auðlindadeild er meðal höfunda að nýrri grein í virta vísindatímaritinu Nature
Háskólinn á Akureyri tók þátt í viðamikilli rannsókn hvað varðar áhrif veðurfarstengdra hamfara á örverur í jarðvegi og birtist grein um rannsóknina í gær í hinu virta vísindariti Nature. Oddur Þór Vilhelmsson, prófessor við Auðlindadeild, tók þátt í verkefninu fyrir hönd HA. Greinina má nálgast hér.
Í rannsókninni var reynt að kortleggja hvernig lífríki örvera í jarðvegi bregst við áföllum tengdum loftslagi og veðurfari. Kortlagningin er þvert á gerðir jarðvegs og landfræðilega legu. Tilgátan var sú að áföll í veðurfari breyti samsetningu lífríkis örvera á merkjanlegan hátt. Ef svo væri þá er hægt að spá fyrir um áhrif áfalla í veðurfari á lífríki örvera í jarðvegi óháð gerð jarðvegs og hvar í heiminum hann er. Auk samsetningar á tegundum lífríkis örvera var einnig hugað að starfsemi þess út frá genatjáningu. Þannig væri hægt að spá fyrir um hvernig samsetning lífríkis örvera tekur breytingum og spá fyrir um áhrif á lífefnafræðilega starfsemi þess.
Til að afla gagna voru tekin sýni af jarðvegi úr túnum og öðru graslendi víðs vegar í Evrópu, þar á meðal frá Möðruvöllum í Hörgárdal. Sýnunum var komið fyrir í hermiræktum þar sem líkt var eftir ýmsum áföllum á borð við þurrka, flóð, kul og hitabylgjur í tvær vikur. Erfðaefnið var einangrað fyrir og eftir ofangreindar tilraunir. Einnig var ýmis ensímvirkni mæld ásamt fleiru. Samtals var unnið með 600 óháðar hermiræktir.
Niðurstöður sýna að sterkasti þátturinn sem sýnir hvernig lífríki örvera bregst við áföllum er hver samsetning þess var í upphafi. Það undirstrikar mikilvægi þess að þekkja samsetningu lífríkis örvera í jarðvegi á hverju landsvæði fyrir sig ef hægt á að vera að spá fyrir um áhrif áfalla í veðurfari með einhverri vissu. Þrátt fyrir það sýndu niðurstöður einnig að hægt er að spá á almennum nótum fyrir um hvernig starfsemi lífríkis örvera í jarðvegi tekur breytingum við veðurfarsáföll. Til dæmis sýndu niðurstöður að hitabylgjur leiði almennt til skerðingar á fjölbreytni þess hvernig jarðvegur tekur upp næringu en auki aftur á móti tjáningu gena sem gegna hlutverki í ferlum sem örverurnar nota til að taka á sig óvirk dvalarform.
Rannsóknina leiddu Franciska de Vries við Háskólann í Amsterdam og Christopher Knight við Háskólann í Manchester, en auk þeirra tók þátt í rannsókninni vísindafólk við 20 aðrar rannsóknastofnanir vítt og breitt um Evrópu og víðar, þar á meðal við Auðlindadeild Háskólans á Akureyri, eins og áður segir.