Óttar Guðbjörn Birgisson ráðinn verkefnastjóri í Þróun náms og val á nemendum í hjúkrunarfræði
Háskólinn á Akureyri og Háskóli Íslands hafa fengið styrk vegna verkefnisins Þróun náms og val á nemendum í hjúkrunarfræði. Samstarf um þróun kennslu, námsefnis og val á nemendum í nám í hjúkrunarfræði í HA og HÍ. Styrkurinn fékkst úr Samstarfssjóði háskólanna.
Búið er að ráða Óttar Guðbjörn Birgisson sem verkefnastjóra í verkefnið. Óttar er doktorsnemi í íþrótta- og heilsufræði við Menntavísindasvið HÍ og lúta hans rannsóknir að geðheilsu unglinga. Hann er klínískur sálfræðingur auk þess sem hann hefur aflað sér menntunar í opinberri stjórnsýslu. Óttar veit fátt skemmtilegra en tölfræði og aðferðafræði og hann kennir m.a. námskeið í tölfræði, aðferðafræði og félags- og sálfræði við HÍ.
Óttar er ráðinn af báðum háskólum í verkefnið og mun starfa sem starfskraftur HA í tvö ár tengt verkefninu auk þess sem hann hefur verið ráðinn sem aðjúnkt á Heilbrigðisvísindasvið HÍ. „Það er spennandi að vinna að því að hámarka nýtingu námspláss í hjúkrunarfræði og draga úr brottfalli úr námi og starfi. Verkefnið felur í sér gagnasöfnun og greiningu á inntökuferli, námsframvindu og starfstengdum þáttum eftir útskrift. Með þessu skapast grundvöllur fyrir gagnadrifnar lausnir sem styðja við árangur í námi og eflingu hjúkrunarstéttarinnar,“ segir Óttar um verkefnið og bætir við: „Við munum einblína á að greina þá þætti sem spá fyrir um styrk og áhuga í námi og starfi, ásamt því að skoða valaðferðir á nemendum og möguleikann á samræmdri inntöku háskólanna.“
Markmið verkefnis er að tryggja gæði náms, fjárhagslega hagkvæmni, auka jafnræði nemenda sem og ánægju í námi. „Verkefnið er stórt og það verður áhugavert að fá að starfa hjá báðum háskólum en að mínu mati styrkir það verkefnið gríðarlega að það sé unnið í þéttu samstarfi.“ segir Óttar að lokum.
Við bjóðum Óttar velkominn til starfa og óskum honum velfarnaðar í verkefninu.
Hægt er að hafa samband við Óttar á netfangið ot@hi.is til að fá frekari upplýsingar um verkefnið.