Ráðstefnan, Farsæll ferill: Íþróttaferill í með- og mótbyr, var haldin í Hátíðarsal Háskólans á Akureyri, laugardaginn 23. september. Ráðstefnan var haldin í samstarfi við Akureyrarbæ, ÍSÍ og ÍBA en samstaf þeirra við HA hefur verið í gangi í þónokkurn tíma með ýmsum áhugaverðum viðburðum síðustu ár.
Þema ráðstefnunnar var á íþróttasálfræðilegum nótum og var tilgangurinn að skapa vettvang fyrir þau sem koma að íþróttum á margvíslegan hátt og ræða um viðfangsefni liðandi stundar í íþróttum. Ráðstefnan var vel sótt.
„Ráðstefnan gekk einstaklega vel en um 70 manns mættu og sýndu efninu mikinn áhuga,“ segir Nanna Ýr Arnardóttir, lektor við Hjúkrunarfræðideild og ein skipuleggjenda ráðstefnunnar. Hún segir mikla ánægju hafa verið með að fá svona viðamikinn viðburð norður og mikil ánægja hafi verið meðal fyrirlesara, bæði þeirra erlendu og innlendu. „Vésteinn Hafsteinsson náði svo salnum algjörlega í kynningu sinni á TEAM ICELAND,“ bætir hún við.
Nanna segir að það hafi kristallast á ráðstefnunni hversu mikilvægt það er að huga að sálfræðilegum þáttum hvað varðar frammistöðu í íþróttum, en líka hversu mikilvæg geðheilsa og vellíðan er fyrir frammistöðu þegar til lengri tíma er litið. Einnig, hvað það er í rauninni hægt að gera og hvað á eftir að gera á einstaklingsgrundvelli og hvað varðar umgjörð til að bæta þessa þætti í framtíðinni.
„Sambærileg ráðstefna hefur ekki verið haldin hér áður á Norðurlandi, en nú hefur fyrsta skrefið verið tekið. Við viljum líka tengja saman akademíuna og íþróttafélögin á svæðinu og stuðla að samstarfi í kringum rannsóknir og fræðslu. Fyrsta skrefið hefur verið stigið í þeim efnum og vonum við að það verði áframhald á því. Þá stefnum við á að gera ráðstefnuna að reglulegum viðburði,“ segir Nanna Ýr að lokum.