Sigurvegarar með nýja þekkingu

Vísindaskóli unga fólksins 2025
Sigurvegarar með nýja þekkingu

Það hefur gustað mikið á hinu háa Alþingi og stundum getur verið illskiljanlegt að átta sig á hvað er að eiga sér stað. Unga fólkið sem tekur þátt í Vísindaskóla unga fólksins í júní ætlar að fara ofan í saumana á þeim málum og getur vonandi í framhaldinu útskýrt þau fyrir foreldrum sínum að skóladegi loknum. Vísindaskóli unga fólksins er orðinn fastur liður í starfsemi Háskólans á Akureyri og er hann rekinn af Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri. Á hverju ári er boðið upp á ný þemu og að þessu sinni mun starfsfólk frá Alþingi mæta á staðinn og sjá um eitt þema, sem snýr að stjórnun landsins.

Nemendur læra líka margt annað. Yfirskriftirnar á þemunum í ár eru: Pöddulíf og hljóðin í trjánum, Hvað kostar að vera unglingur og er hægt að nota gömlu fötin? Risaeðlur og þróun mannsins og af hverju erum við ekki öll eins? Hvernig er flott mynd og geta krakkar tamið tæknina? Loks er þemað: Hver stjórnar landinu og hvernig bjó fólk í gamla daga?

Hægt að nota frístundastyrkinn

Skólinn er ætlaður börnum á aldrinum 11-13 ára og hvert ár sækja 80-85 börn skólann. Þau geta komið þrjú ár í röð enda tryggt að þeirra bíða ný og áhugaverð verkefni. Börnin koma alls staðar að af landinu, en meirihlutinn kemur þó frá Akureyri og nágrenni.

Verkefnið er rekið að stórum hluta með styrkjum frá fyrirtækjum og stofnunum en líka eru margir sem gera framkvæmdina mögulega með annars konar framlögum. Hægt er að nota frístundastyrkinn til þess að greiða þátttökugjaldið sem hefur verið reynt að halda í lágmarki. Í ár er gjaldið 33.000 kr. Innifalið er næringarríkur og hollur hádegismatur.

Sigrún Stefánsdóttir og Dana Rán Jónsdóttir, verkefnastjóri hjá RHA, skipuleggja dagskrána og halda utan um framkvæmdina. Þær segja að lögð sé mikil áhersla á metnaðarfulla dagskrá og að einvala lið hafi komið að kennslunni alveg frá byrjun. Hugmyndafræðin bak við skólastarfið sé að virkja nemendur sem mest og best, leyfa þeim að vinna sjálfstætt og að í lok hvers dags fari börnin heim sem sigurvegarar með nýja þekkingu.

Skólinn byrjar kl. 9:00 á hverjum degi og stendur til kl. 15:00. Að þessu sinni verður hann starfræktur vikuna 23.-27. júní. Skólanum lýkur með formlegri útskriftarhátíð sem er byggð upp á sama hátt og þegar verið er að útskrifa háskólanemana. Búið er að opna fyrir skráningu en fyrst koma, fyrstir fá.

Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu skólans www.visindaskoli.is eða hjá Dönu í síma 460-8906.