Eru Teflon og GoreTex að skaða framtíð hafsins?

Ashani Arulananthan, doktorsnemi við Auðlindadeild, segir frá rannsóknum sínum á áhrifum flúorsetinna alkanefna á vöxt og efnaskipti kísilþörunga

Ashani Arulananthan hóf doktorsnám við Auðlindadeild í september 2023. Í fyrirlestri sínum mun Ashani greina frá helstu niðurstöðum verkefnisins hingað til og tæpa á þeim áskorunum og verkefnum sem framundan eru.

Ashani vinnur að viðamiklu verkefni um áhrif ýmissa flúorsetinna alkanefna á kísilþörunga. Meðal slíkra efna má nefna pólýtetraflúoróetýlen sem flestir þekkja undir vörumerkjunum Teflon og GoreTex. Þessi efni eru algeng og illviðráðanleg mengunarefni í náttúrunni, því niðurbrot þeirra af völdum sveppa og baktería gengur afar hægt fyrir sig. Sum þessarra efna geta einnig haft skaðleg áhrif á heilsu manna og annarra lífvera. Kísilþörungar mynda afar mikilvægan þátt í fæðukeðju hafsins og því lykilatriði að skilja áhrif mengunarefna á vöxt þeirra og viðgang.

Verkefni Ashaniar er umfangsmikið og beitir krefjandi aðferðum svo sem örveruþýðisgreinigu (metabarcoding), greiningu á genatjáningu (transcriptomics), efnamengjagreiningu (metabolomics) og fleira. Það er unnið í samstarfi við fjölda vísindafólks hér heima og erlendis. Þar ber fremsta að nefna dr. Bettinu Scholz hjá líftæknifyrirtækinu BioPol á Skagaströnd, en hún leiðir verkefnið í heild og er aðalleiðbeinandi Ashaniar ásamt Oddi Þór Vilhelmssyni, prófessor í Auðlindadeild HA.

Fyrirlesturinn fer fram á ensku í stofu N201 og verður einnig streymt frá honum hér.

Öll velkomin