Rannsókn á sjálfvirknivæðingu og sjónarhorni heilbrigðisstarfsmanna á Akureyri

14. apríl 2025 kl. 10:00
Meistaravörn í stafrænni heilbrigðistækni

Velkomin á fyrstu meistaravörnina í stafrænni heilbrigðistækni við HA í samstarfi við HR.

Hildur Andrjesdóttir meistaranemi í stafrænni heilbrigðistækni mun verja lokaverkefnið sitt:

Stafræn heilbrigðistækni: Rannsókn á sjálfvirknivæðingu og sjónarhorni heilbrigðisstarfsmanna á Akureyri

Vörnin fer fram í stofu M102 í Háskólanum á Akureyri.

Rannsókn Hildar er tvíþætt, annars vegar er skoðuð upplifun heilbrigðisstarfsfólks á Sjúkrahúsinu á Akureyri á núverandi tækniumhverfi, tækifæri til úrbóta eru greind og skoðað hvernig hægt er að nýta tæknina til að einfalda verkferla með sjálfvirknivæðingu. Hins vegar var fylgst með þróun hugbúnaðarlausnarinnar HomeVital Harmony sem hönnuð var í samstarfi við Heimahjúkrun á Akureyri og upplifun starfsfólks á þátttöku þeirra í því ferli skoðuð. Sjá ágrip fyrir frekari upplýsingar.

Ágrip

Öldrun þjóðarinnar og framfarir í læknavísindum hefur leitt til aukins álags á heilbrigðiskerfið sem jafnframt hefur leitt til aukins álags á heilbrigðisstarfsfólk. Aukið vinnuálag og aukin streita heilbrigðisstarfsfólks hefur neikvæð áhrif á starfsánægju og eykur líkurnar á brottfalli úr stéttinni. Það er því mikilvægt að finna leiðir til að létta undir störf þeirra. Rannsóknir hafa sýnt að störf sem hafa þýðingu og gefa starfsfólki tilgang hafi jákvæð áhrif á starfsánægju en aftur á móti geta verk sem fela í sér miklar endurtekningar dregið úr ánægjunni. Þessi rannsókn er tvíþætt, annarsvegar er skoðuð upplifun heilbrigðisstarfsfólks á Sjúkrahúsinu á Akureyri á núverandi tækniumhverfi, tækifæri til úrbóta eru greind og skoðað hvernig hægt er að nýta tæknina til að einfalda verkferla með sjálfvirknivæðingu. Hins vegar var fylgst með þróun hugbúnaðarlausnarinnar HomeVital Harmony sem hönnuð var í samstarfi við Heimahjúkrun á Akureyri og upplifun starfsfólks á þátttöku þeirra í því ferli skoðuð.

Niðurstöðurnar gefa til kynna að starfsmenn vilja taka þátt í ákvarðanatöku og innleiðingarferlum fyrir nýjar tæknilausnir og einnig að þátttaka þeirra er líklegri til að leiða til farsællar útkomu. Niðurstöðurnar gefa einnig vísbendingu um ýmis tækifæri til að nýta tækni til að efla vinnuumhverfi Sjúkrahússins á Akureyri, sérstaklega þar sem um það bil 42% starfsmanna lýstu yfir óánægju (nokkuð óánægð/ur eða mjög óánægð/ur) með núverandi tækniumhverfi og enginn sagðist vera mjög ánægður með það. Þessar niðurstöður eru í samræmi við athuganir sem gerðar voru á sjúkrahúsinu. Niðurstöðurnar benda einnig til þess að smærri stofnanir á Íslandi þurfi stuðning til að efla tæknilegt umhverfi sitt þar sem þær hafa ekki sama aðgang að mannauð og fjármagni og aðrar stærri stofnanir. Mælt er með því að þessi vinna sé miðstýrð þar sem þarfir allra sjúkrahúsa á Íslandi eru hafðar til hliðsjónar við þróun lausna. Með þessari nálgun er vonast til aukinnar skilvirkni þar sem allar stofnanir njóti góðs af vinnunni. Á sama tími tryggjum við að starfsmenn sem ferðast á milli stofnana séu að vinna í sama tækniumhverfi, óháð staðsetningu þeirra á Ísland.

 Öll velkomin!