Velferð – nám og líðan nemenda og kennara

23. apríl 2025 kl. 14:00-16:00
Málþing um fyrstu niðurstöður norræna rannsóknarverkefnisins INSPECT

Öll velkomin á málþingið Velferð – nám og líðan nemenda og kennara

Málþingið er um fyrstu niðurstöður norræna rannsóknarverkefnisins INSPECT. Málþingið fer fram á Zoom og þar verða kynnt sjónarmið nemenda og kennara um ýmsa þætti náms og kennslu.

Smelltu hér til að tengjast streymi (Zoom)

Um rannsóknarverkefnið INSPECT

INSPECT (Societal Security after COVID 19 - Inquiring Nordic Strategies, Practices, Educational Consequences and Trajectories) er þriggja ára rannsóknarverkefni (2023-2025) styrkt af Nordforsk og er ætlað er að rannsaka langvarandi breytingar og afleiðingar COVID-19 faraldursins út frá sjónarhóli skóla, kennara og nemenda. Fjöldi fyrri rannsókna benda til þess að þau höft og sú viðvarandi óvissa sem ríkti á tímum COVID-19 hafi haft neikvæð áhrif á nám og líðan fjölmargra nemenda og kennara þeirra.

Markmið INSPECT-verkefnisins er því að safna með skipulögðum hætti upplýsingum í grunnskólum í Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Finnlandi og á Íslandi (15 skólar í hverju landi), til að öðlast skilning á langvarandi áhrifum COVID-19 og bæta þannig þekkingu okkar til að gera norrænum skólum kleift að tryggja samfélagslegt öryggi til framtíðar út frá menntun og skólagöngu.

Ekki bara um COVID 19 þó, því eins og dagskrá málþingsins gefur til kynna ná áherslur rannsóknarinnar út fyrir COVID faraldurinn og rannsóknarefnið tengist þannig námi og kennslu almennt.

INSPECT verkefnið er leitt af dr. Ane Qvortrup prófessor við SDU í Danmörku. Íslenskir rannsakendur eru dr. Hermína Gunnþórsdóttir, dr. Bergljót Þrastardóttir, dr. Garðar Ágúst Árnason, dr. Guðmundur T. Heimisson við Háskólann á Akureyri og dr. Svava Pétursdóttir við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.  

Dagskrá

Fjölbreytt erindi eru á dagskrá sem öll eiga það þó sameiginlegt að tengjast námi og kennslu almennt. Kennarar, starfsfólk skóla og áhugafólk um skólamál er því eindregið hvatt til að mæta og taka þátt í málþinginu. 

Málþingið hefst kl. 14 á Zoom og lýkur með umræðum kl. 16

14:00-14:05 Kynning á INSPECT rannsókninni
Hermína Gunnþórsdóttir prófessor við Kennaradeild HA

14:05-14:25 Vellíðan nemenda í námi og heimavið 
Guðmundur T. Heimisson lektor við Sálfræðideild HA

Líðan nemenda var skoðuð með spurningalista tengdum þremur víddum á vellíðan; námslegri, félagslegri og tilfinningalegri. Þessir þrír þættir geta ýmist verið áhættuþættir eða verndandi. Samanburður við önnur Norðurlönd verður kynntur.

14:25-14:45 Aðgerðir stjórnvalda varðandi skólahald í COVID-19
Garðar Ágúst Árnason prófessor við Kennaradeild HA

Fjallað verður um takmarkanir á skólahaldi vegna samkomubanns í COVID faraldrinum, áhrif þeirra á skólahald og reynslu kennara.

14:45-15:05 Stafræn tækni í námi og lífi
Svava Pétursdóttir, lektor við deild kennslu- og menntunarfræði, Menntavísindasvið HÍ 

Fjallað verður um hvernig stafræn tækni er nýtt í skólum og reglur um símanotkun og umfang hennar hjá nemendum.  

15:05-15:25 Wellbeing among nordic youth
Eva Lykkegaard, Associate professor University of Southern Denmark

15:25-15:45 Kynbundnar væntingar til unglinga og vellíðan: Hlutverk skóla og félagsmótunar í lífi nemenda
Bergljót Þrastardóttir lektor og Hermína Gunnþórsdóttir prófessor, Kennaradeild HA  

Fjallað verður um tímamót í lífi nemenda í 10. bekk og þá þætti sem þau telja að móti þeirra námsval, samskipti, líðan og þeirra sýn.

15:45-16:00 Umræður

Öll velkomin!