Hefur þú einhvern tímann velt því fyrir þér hvort að börn búi yfir meðfæddri tilfinningu fyrir réttu og röngu? Rannsakendur við Sálfræðideild Háskólans á Akureyri vinna nú að rannsókn og vantar dýrmætt innlegg frá litlum vísindamönnum. Hópurinn býður því foreldrum með ungabörn á aldrinum 5,5 til 10,5 mánaða að taka þátt í þýðingarmikilli rannsókn. Um er að ræða alþjóðlega rannsókn sem er samstarfsverkefni 77 rannsóknarhópa frá 27 löndum.
Þátttaka fer fram í húsnæði Háskólans á Akureyri. „Í heimsókninni mun barnið þitt horfa á örstutt aldurshæf myndbönd með fígúrum, á meðan barnið situr þægilega í kjöltu þinni. Eftir þá skemmtilegu upplifun þá fáið þið tækifæri til að lesa saman bók ásamt því að svara könnun. Öll lotan mun taka um það bil 40 mínútur og er hægt að skipuleggja hana bæði á virkum dögum og um helgar, allt eftir hvað hentar ykkar skipulagi. Sem vott um þakklæti okkar, þá fær barnið þitt þátttökuskírteini að gjöf,“ útskýrir Hilal Sen, lektor við Sálfræðideild sem leiðir verkefnið en hún stýrir CUTE Lab sem heldur utan um rannsóknina.
Auk Hilal eru í CUTE Lab teyminu þær Hafdís Kristný Haraldsdóttir og Stefanía Guðrún Eyjólfsdóttir, stúdentar við Sálfræðideild. „Mér finnst frábært að fá tækifæri til að taka þátt í þessari merkilegu rannsókn. Það er áhugavert að velta því fyrir sér hvora fígúruna börnin muni velja, hvort þau velji þá fígúru sem hjálpar eða þá sem hindrar. Og þá hvort að börnin sjái einhvern mun á réttu og röngu svona ung. Ég bind vonir við það að félagslegt mat hjá svona ungum börnum sé farið að myndast og að þau velji sjálf, án aðstoðar foreldra eða forráðamanns hið rétta,“ segir Hafdís Kristný.
„Við lok þessa verkefnis vonumst við til þess að geta varpað ljósi á uppruna mannlegs siðferðis. Niðurstöður rannsóknarinnar munu einnig veita okkur innsýn sem mun geta stuðlað að því að sníða skilvirkar uppeldis- og kennsluaðferðir. Ég vil hvetja þau sem eiga erindi í rannsóknina að koma með okkur í þessa stórmerkilegu vegferð inn í heim barnasiðferðis og saman getum við haft þýðingarmikil áhrif,“ segir Hilal að lokum.
- Ef þú hefur áhuga á því að taka þátt í þessari vísindaferð með barninu þínu þarft þú að fylla meðfylgjandi eyðublað. Í kjölfarið mun rannsóknarhópurinn hafa samband og veita frekari upplýsingar um rannsóknina og bóka tíma fyrir þátttöku ykkar ef áhugi er fyrir hendi.
- Áhugasöm geta fundið nánari upplýsingar um CUTE Lab hér.