Háskólinn á Akureyri og Drift EA sameina krafta sína til að efla frumkvöðlastarf og nýsköpun — HA mun auglýsa starf verkefnastjóra á næstunni
Háskólinn á Akureyri og Drift EA sameina krafta sína til að efla frumkvöðlastarf og nýsköpun á Norðurlandi.
Svo hljómar inngangur að samningi Driftar EA, sem er sjálfstætt og óhagnaðardrifið félag um nýsköpun og frumkvöðlastarf, og Háskólans á Akureyri: „Nýsköpun er mikilvæg bæði fyrir einstaklinga í námi og einstaklinga á vinnumarkaði. Háskólinn á Akureyri hefur síðustu ár haft sem stefnu að auka virkni rannsóknarhópa. Meðal annars til að takast á við áskoranir samfélagsins og veita rannsóknasamfélagi skólans tækifæri til nýsköpunar á öllum fræðasviðum. Ný og skapandi nálgun er nauðsynleg forsenda þess að stúdentar geti tekist á við margbreytilegt umhverfi sem blasir við að námi loknu.“
Höfuðstöðvar Driftar EA eru í miðbæ Akureyrar. Þar verður meðal annars hlunnur sem er rými fyrir nýsköpunarverkefni til að vaxa með öflugum stuðningi frá sérfræðingum. Markmið samningsins er að skapa umhverfi fyrir frumkvöðla og sprotafyrirtæki á Eyjafjarðarsvæðinu og byggja brú á milli rannsóknaumhverfis háskólans og atvinnulífsins. Þannig verður frumkvöðlum gert auðveldara með að sjá hugmyndir sínar verða að veruleika.
„Það er virkilega gaman að sjá þessa samvinnu verða að veruleika þar sem í mínum huga eru nýsköpun og frumkvöðlahugsun grunnur framfara. Þessi samningur er hluti af þeirri vegferð að hvetja og styðja starfsfólk og stúdenta til að horfa í átt til nýsköpunar,“ segir Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri um samninginn.
„Verkefni frumkvöðla og nýsköpunar við Háskólann á Akureyri leggur áherslu á að efla frumkvöðlahugsun. Samvinna er lykilhugtak þegar kemur að því að skapa tækifæri til að stuðla að breytingum og styðja við þróun nýrra hugmynda. Rík áhersla er á þverfaglegt samstarf og á stuðla að þátttöku stúdenta, rannsakenda og annarra hagsmunaaðila innan sem utan skólans með það að markmiði að veita nýsköpun brautargengi. Verkefnið er mikilvægur þáttur í því að styrkja tengsl háskólans við atvinnulífið og svara ákalli samfélagsins um aukna vitund um mikilvægi nýsköpunar,“ segir Guðrún Rósa Þórsteinsdóttir, forstöðumaður Miðstöðvar doktorsnáms og stjórnsýslu rannsókna.
Starfsfólk og stúdentar HA sem taka þátt í verkefnum Driftar EA munu hafa aðgang að aðstöðu í Messanum sem er frumkvöðlarými í húsnæði Driftar EA. Þá mun HA ráða verkefnastjóra í fullt starf sem verður tengiliður skólans og Driftar EA. Mun hann miðla upplýsingum, veita ráðgjöf, tengja samningsaðila og kynna starfsemina fyrir starfsfólki og stúdentum. Samningurinn er til eins árs og að honum loknum verður áframhaldandi samstarf skoðað. Verkefnastjórinn verður með starfstöð hjá báðum samningsaðilum og verður staðan auglýst á næstunni. Við hvetjum áhugasöm til að fylgjast með.
F.v. Kjartan Sigurðsson, lektor við Viðskiptadeild sem verður formaður fagráðs Frumkvöðla og nýsköpunar, Sesselja Ingibjörg Barðdal Reynisdóttir, framkvæmdastýra Driftar EA, Eyjólfur Guðmundsson, rektor, Kristján Þór Júlíusson, stjórnarformaður Driftar EA og Guðrún Rósa Þórsteinsdóttir, sem verður næsti yfirmaður verkefnastjórans.