Næstkomandi haust verður boðið uppá nýja námsleið innan Hjúkrunarfræðideildar Háskólans á Akureyri í samstarfi í Félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands. Þetta er framhaldsnám á meistarastigi, 60 ECTS og ber heitið Ráðgjöf í málefnum fólks með heilabilun. Megininntak námsins er sérhæfing á sviði heilabilunar með áherslu á persónumiðaða, heildræna og samþætta ráðgjöf og þjónustu við fólk með heilabilun og aðstandendur þeirra auk ráðgjafar og fræðslu til faghópa, almennings og stofnana. Námið er þverfræðilegt enda krefst ráðgjöf í heilabilun víðrar sýnar og samstarfs margra aðila.
Námsleið þessi hefur mikið samfélagslegt gildi þar sem hún er unnin í samræmi við stefnumótun og aðgerðaráætlun stjórnvalda í málefnum fólks með heilabilun. Mikil þörf er á aukinni menntun og fagþekkingu í þessum málefnum í ljósi ört vaxandi hóps með heilabilun og er mikilvægt fyrir heilbrigðis og velferðarkerfið í heild. Starfsvettvangur ráðgjafa í málefnum fólks með heilabilun er talinn víðtækur en þar á meðal eru stjórnunar og ráðgjafastörf innan heillbrigðis-og velferðarkerfisins eins og innan heilbrigðisumdæma, minnismóttaka, heilsugæslu, heimahjúkrunar, félagslegrar heimaþjónustu, dagþjálfunar og hjúkrunarheimila.
Kynningarfundur
Opin kynning á náminu mun fara fram 18. mars í stofu M102 kl: 12:00-12:45 og honum verður einnig streymt.
Beint streymi
Opnað hefur verið fyrir umsóknir í Ráðgjafanám í málefnum fólks með heilabilun: