Umsóknarfrestur um nám við Háskólann á Akureyri rann út miðvikudaginn, 5. júní. Samtals bárust 2.024 umsóknir sem er 7% fjölgun frá því í fyrra og frá árinu 2022 er umsóknum að fjölga um tæp 20%.
Þá var metaðsókn í hjúkrunarfræði og fjölgun umsókna um 11% frá síðasta ári og ekki hafa fleiri sóst eftir námsplássi í hjúkrunarfræði síðan árið 2018. Einnig er fjölgun umsókna í grunnnám í sálfræði. Báðar þessar námsleiðir eru háðar fjöldatakmörkunum og að loknum samkeppnisprófum kemst aðeins hluti stúdenta í áframhaldandi nám á vormisseri.
Hástökkvarar
Fjölgun umsókna í Kennaradeild er um 22%. Það er mesta fjölgun deildar á milli ára. Heildarfjöldi umsókna í Kennaradeild er 387. Í fyrra voru 30 ár síðan Kennaradeild HA var stofnuð meðal annars með það að markmiði að fjölga kennaramenntuðu fólki á landsbyggðunum. Á tæpum 20 árum hefur náðst árangur hvað það varðar og hlutfall menntaðra kennara í grunnskólum á Norðurlandi eystra farið úr 70% í tæp 90% og í leikskólum hefur hlutfallið hækkað um 10%.
Aldrei hafa borist fleiri umsóknir í líftækni og Háskólinn á Akureyri er eini háskóli landsins sem býður upp á BS gráðu í líftækni. „Líftæknin er ört vaxandi svið, bæði hér á landi sem og á heimsvísu. Fjölgun umsókna endurspeglar þann mikla vöxt. Ég held að fjölgunin sé í takt við þau fjölbreyttu störf sem bíða stúdenta að námi loknu enda er líftæknin breitt svið. Á undanförnum árum hafa fjölmörg líftæknifyrirtæki skotið upp kollinum á Íslandi og eftirspurn eftir útskrifuðum líftæknum er mikil,“ segir Auður Sigurbjörnsdóttir, dósent og tilvonandi deildarforseti við Auðlindadeild.
Háskóli landsins alls
Aukin aðsókn er í flestar námsleiðir á öllum námsstigum. Þá virðist lítið lát vera á aukinni vinsæld grunnnáms í viðskiptafræði og þar hefur verið stöðug aukning undanfarin fimm ár og ljóst að námsfyrirkomulag deildarinnar höfðar til umsækjenda.
Eyjólfur Guðmundsson, rektor segir um fjölgun umsókna, „við erum mjög ánægð með þessa aukningu enda þriðji stærsti árgangur frá upphafi. Þetta þýðir að háskólinn á Akureyri stefnir hraðbyri í 3000 stúdenta markið og hefur því vaxið stöðugt síðastliðinn tíu ár. Háskólinn á Akureyri er svo sannarlega háskóli landsins alls og það sést á búsetu stúdentahópsins. HA hefur fyrir löngu sannað gildi sitt í íslensku samfélagi og eflaust gera ekki allir sér grein fyrir þeim áhrifum sem Háskólinn á Akureyri hefur haft fyrir landsbyggðirnar á Íslandi. Námsfyrirkomulagið okkar opnar dyr og gefur stúdentum í landinu öllu tækifæri á námi í heimabyggð og hafa rannsóknir sýnt fram á jákvæð áhrif á byggðaþróun samhliða þessu.“
Þátttaka á Nýnemadögum mikilvæg
Við hlökkum til að taka á móti nýnemum í ágúst og eru nýnemar hvattir til þess að taka virkan þátt í Nýnemadögum en reynslan sýnir að þátttaka á Nýnemadögum auðveldi stúdentum að hefja nám; þau eru fljótari að kynnast öðrum stúdentum, vinnuumhverfinu, starfsfólki og húsnæði HA. Þá hefjast fyrstu kennslustundirnar í þessari viku og þurfa nýnemar því að skoða stundatöfluna sína í Uglu. Nýnemadagar verða haldnir vikuna 26.-30. ágúst. Hér má nálgast upplýsingar um dagskrá Nýnemadaga.
- Unnið er að því að afgreiða umsóknir og eru umsækjendur beðnir um að fylgjast með stöðu umsókna í samskiptagáttinni í Uglu. Þá þurfa umsækjendur að staðfesta skólavist með því að greiða skrásetningargjald fyrir 4. júlí.