Vísindaskóli unga fólksins í áratug

Vika fróðleiks og skemmtunar
Vísindaskóli unga fólksins í áratug

Vísindaskóli unga fólksins var haldinn í tíunda sinn á þessu sumri. Aðsóknin var meiri en nokkru sinni fyrr. Í Vísindaskólanum kynnast nemendur ýmsum fræðum og taka þemu Vísindaskólans mið af því sem er að gerast í samfélaginu hverju sinni.

Ungt fólk á aldrinum 11 til 13 ára getur skráð sig í Vísindaskóla unga fólksins og er algengt að börn noti tækifærið til þess að skrá sig þrjú ár í röð, enda eru alltaf ný þemu í boði. Í auglýsingu um skólann segir að þetta sé vika fróðleiks og skemmtunar. Sigrún Stefánsdóttir sem hefur verið skólastjóri frá upphafi segir að til þess að standa undir þessum fyrirheitum séu kennarar handvaldir til kennslunnar. „Hér er gleðin og fróðleiksþorsti í öndvegi. Við viljum að nemendur læri eitthvað nýtt og ferskt, sem þeir geta síðan miðlað áfram þegar þeir koma í sitt hefðbundna nám í haust,“ segir Sigrún.


Dana Rán Jónsdóttir, verkefnastjóri Vísindaskóla unga fólksins og Sigrún Stefánsdóttir

Vísindaskóli unga fólksins býður alltaf upp á fimm ólík þemu og skólinn er frá klukkan níu að morgni til klukkan þrjú síðdegis og stendur yfir í fimm daga. Þemu skólans í ár voru: Forritun og gervigreind, Svefn, næring og æfing, Hvernig tengjast jarðskjálftar eldgosum? Fiskur undir steini og Glitrandi stjörnur, veður og vindar. „Reynsla undanfarinna ára sýnir að skólinn dregur drengi ekki síður en stúlkur í þessa lærdómsviku. Sum ár hafa drengir verið í meirihluta nemenda sem er mikilvægt í ljósi hás brottfalls drengja úr formlegu námi,“ segir Sigrún.

Vísindaskólinn er fyrir alla

Albert Gísli, þrettán ára nemandi skólans var einn þeirra sem flutti ræðu í útskriftarathöfn Vísindaskólans sem fór fram síðastliðinn föstudag. Í ræðu sinni sagði hann meðal annars: „Þegar ég kom í skólann áttaði ég mig á að Vísindaskólinn er ekki bara fyrir krakka sem hafa áhuga á vísindum heldur fyrir alla. Því miður verður þetta í síðasta skiptið sem ég get komið hingað og ég mun sakna þess næsta vor að geta ekki verið með. Ég verð þá orðinn of gamall.“

„Í Vísindaskólanum var rosa gaman og mikið fjör“

Hlynur Orri Helgason, þrettán ára nemandi, tók þátt í Vísindaskólanum í þriðja og síðasta skipti og ber hann skólanum mjög vel söguna: „Mér fannst skemmtilegast í forritun og gervigreind af því að ég hef hrikalegan áhuga á forritun.“

Þá tók Ellen Ösp Stefánsdóttir, tólf ára, þátt í Vísindaskólanum í fyrsta skipti. „Þessa viku í Vísindaskólanum lærðum við fullt. Við lærðum til dæmis stjörnufræði, jarðfræði, forritun og helling um gervigreind.“ Þá hefur Ellen Ösp þegar ákveðið að taka þátt aftur að ári. „Í Vísindaskólanum var rosa gaman og mikið fjör og ég ætla að fara aftur á næsta ári. Mér fannst skemmtilegast í stjörnufræði því mér finnst mjög merkilegt að læra um það sem er í sólkerfinu og um pláneturnar í sólkerfinu okkar,“ segir hún að lokum.

  • Axel Darri Þórhallsson tók fjölmargar skemmtilegar myndir þessa viku og geta áhugasöm nálgast þær hér.