Doktorsvörn í auðlindavísindum

Natalia Ramírez Carrera ver doktorsritgerð sína

Mánudaginn 10. júní mun Natalia Ramírez Carrera verja doktorsritgerð sína í auðlindavísindum við Háskólann á Akureyri.

Doktorsritgerðin ber heitið: Geta fléttur þjónað sem hýslar fyrir Pseudomonas syringae í íslenskum vistgerðum? Einangrun P. syringae stofna úr íslenskri engjaskóf, greining á plöntusýkjandi virkni þeirra og áhrifum á hvarfefnamengi fléttnanna.

Vörnin fer fram á ensku í Hátíðarsal Háskólans á Akureyri kl. 13:00 og er öllum opin.

Vinsamlegast tilkynnið mætingu í Hátíðarsal hér

Vörninni verður einnig streymt hér.

Ritgerðin var unnin undir leiðsögn Dr. Odds Vilhelmssonar, prófessors við Auðlindadeild Háskólans á Akureyri. Auk hans voru í doktorsnefnd Margrét Auður Sigurbjörnsdóttir, dósent við Auðlindadeild HA, Robert W. Jackson, sviðsforseti við Birmingham Institute of Forest Research, Starri Heiðmarsson, starfandi forstöðumaður hjá Náttúrustofu Norðurlands vestra og frá French National Institute for Agricultural Research (INRAE); Cindy E. Morris, forstöðumaður hjá Plöntumeinadeild INRAE og Odile Berge, sérfræðingur.

Andmælendur eru Gabriele Berg prófessor við Institute of Environmental Biotechnology, Graz University of Technology, Graz, Austurríki og Jonathan M. Jacobs dósent við Infectious Disease Institute, College of Food, Agricultural and Environmental Sciences, Columbus, USA.

Dr. Guðrún Rósa Þórsteinsdóttir, forstöðumaður Miðstöðvar doktorsnáms og stjórnsýslu rannsókna og Dr. Brynjar Karlsson, forseti Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasviðs munu stýra athöfninni.

Um doktorsefnið

Natalia Ramírez fæddist í Madríd árið 1995. Frá því að hún man eftir sér hefur hún haft ástríðu fyrir náttúrunni og þeirri ástríðu fylgdi hún eftir með því að ljúka BS gráðu í umhverfisvísindum við Autonomus University í Madríd árið 2018. Þá lauk hún MSc gráðu í plöntulíffræði og líftækni við University College of Dublin. Í ágúst árið 2020 hóf Natalia doktorsnám sitt í líftækni við Háskólann á Akureyri. Hluta af verkefninu vann Natalia hjá samstarfsaðilum í Frakklandi og Bretlandi. Þá tók Natalia virkan þátt í störfum Umhverfisráðs HA meðan á doktorsnáminu stóð og hóf meðal annars herferð til að efla skólphreinsun á Íslandi. Þá kom Natalia að kennslu við HA, þar sem hún sinnti bæði verklegri kennslu og fyrirlestrum innan Auðlindadeildar. Þá lauk Natalia námskeiði í örverufræði Norðurslóða við Háskólann á Svalbarða sumarið 2023. Doktorsverkefni hennar var styrkt af RANNÍS, Rannsóknarsjóði Háskólans á Akureyri og Erasmus+. 

Ágrip

Í doktorsverkefni sínu rannsakaði Natalia bakteríuna Pseudomonas syringae, sem almennt er þekkt sem plöntusýkill en hefur þó víðtækara vistfræðilegt hlutverk í öðru umhverfi en ræktarlandi. Bakterían hefur verið einangruð úr ýmsum vistgerðum en í verkefni Natalia var skimað fyrir bakteríunni í fléttum og kannað hvort þær gætu hýst P. syringae. Sýni voru tekin af mismunandi fléttutegundum á Norður-, Austur- og Vesturlandi. Niðurstöðurnar benda til þess að P. syringae sé eingöngu að finna í fléttuættkvíslinni Peltigera af þeim tíu ættkvíslum sem tekin voru sýni úr, og eru fléttustofnarnir svipaðir þeim P. syringae stofnum sem finnast í nærliggjandi plöntum.

Í kjölfarið var markmiðið að kanna hvort stofnar sem finnast í fléttum sýndu einhverja meinvirkni. Tilraunir sem Natalia gerði hjá INRAE: Research for Agriculture, Food and Environment mátu árásargirni P. syringae með tveimur aðferðum. Fyrri aðferðin mældi vöxt bakteríustofnanna í plöntunni viku eftir sáningu í 10 plöntutegundum og sú síðari mældi hvort einkenni sæjust á blöðum þriggja mismunandi plöntutegunda 14 dögum eftir sáningu. Niðurstöðurnar gáfu til kynna að stofnar P. syringae , sem voru einangraðir úr fléttum, væru jafn sjúkdómsvaldandi og þeir sem voru einangraðir úr faraldursræktun í Evrópu, að gúrku og byggi undanskildu en þar voru faraldursstofnarnir árásargjarnari.

Lokaáfangi verkefnisins sem unninn var við háskólann í Birmingham beindist að því hvers vegna P. syringae var eingöngu einangruð frá Peltigera ættkvíslinni meðal þeirra tíu ættkvísla sem tekin voru sýni úr. Efnagreining á þremur mismunandi ættkvíslum fléttna, þar á meðal Peltigera, var gerð til að ákvarða hvort tiltekin efnasambönd frá Peltigera gætu stuðlað að viðveru P. syringae eða hvort einhver efnasambönd frá öðrum en Peltigera gætu hamlað nærveru bakteríunnar. Þótt sum efni hafi verið auðkennd sem hugsanlegir áhrifavaldar, sýndu allir stofnar P. syringae fram á getu til að vaxa in vitro í viðurvist allra fléttna sem prófaðar voru.

Áhugasöm geta nálgast doktorsverkefnið hér.

Öll velkomin!