„Aukin fjölbreytni til hins betra“

Samvinna opinberu háskólanna sem miðar að því að fjölga innflytjendum í háskólanámi
Fullrúar í stýrihópi og verkefnisstjóri inngildingarverkefnisins ásamt rektor HÍ á fyrsta fundi hóps…
Fullrúar í stýrihópi og verkefnisstjóri inngildingarverkefnisins ásamt rektor HÍ á fyrsta fundi hópsins.

Opinberu háskólarnir hafa sameinast í verkefni um inngildingu í íslensku háskólasamfélagi. Verkefnið hlaut styrk úr samstarfssjóði háskólanna árið 2023 og núna í september var ráðinn verkefnastjóri til að leiða það. Joanna Marcinkowska, sérfræðingur í fjölmenningu og inngildingu, mun stýra verkefninu.

Með breyttri samfélagsgerð og fjölmenningarsamfélagi er mikilvægt að menntastofnanir beri kennsl á tækifærin sem felast í frekari inngildingu og þróist samhliða fjölbreyttum þörfum samfélagsins. Jöfn tækifæri til menntunar og þjálfunar eru einnig nauðsynleg til árangursríkrar þátttöku í samfélaginu og staðan í dag er sú að innflytjendur fara síður í háskólanám en önnur ungmenni. Við þessu vilja háskólarnir bregðast og er verkefnið liður í því.

Anna Soffía Víkingsdóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknamiðstöð RHA, er fulltrúi Háskólans á Akureyri í verkefninu. „Ég vonast til að verkefnið leiði til þess að í háskólaumhverfinu verði meiri inngilding. Það er gott fyrir fjölbreytileikann í okkar umhverfi og einstaklingana sjálfa að fá sömu tækifæri til menntunar og önnur,“ segir Anna Soffía aðspurð um sínar væntingar til verkefnisins.

Verkefnið er til tveggja ára og er ætlunin að þróa leiðir til að stuðla að aukinni inngildingu í háskólasamfélaginu, fjölga innflytjendum í háskólanámi og sporna við brottfalli þeirra. Útfærsla stuðningsúrræða, þjónustu og ráðgjafar, auk þess að þróa inngildingarstefnu og móttökuáætlun ásamt fræðslu og þjálfun starfsfólks er hluti þeirra verkefna sem eru á áætluninni. Stýrihópur verkefnisins er leiddur af Arnari Gíslasyni frá Háskóla Íslands. Auk hans og Önnu Soffíu sitja í hópnum Gunnhildur Guðbrandsdóttir frá Landbúnaðarháskóla Íslands, Laufey Haraldsdóttir frá Háskólanum á Hólum og Juan Camilo Estrada, Sabrina Rosazza og Sveinn Guðmundsson frá Háskóla Íslands.